MAGNÚS INGI JÓNSSON
Þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni
Magnús Ingi Jónsson situr í 2. sæti K-lista MMM.
Magnús Ingi Jónsson heiti ég og skipa 2. sæti á lista Máttar meyja og manna í Bolungarvík. Ég er með BS gráðu í Ferðamála- og markaðsfræðum frá Háskóla Íslands og viðbótarnám í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum. Ég stunda nú nám í Opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Ég starfa hjá þjónustudeild Vegagerðarinnar á Ísafirði en hef unnið á hinum ýmsu stöðum og ber þar helst að nefna Markaðsstofu Vestfjarða, Wild Westfjords og Íþróttamiðstöðina Árbæ.
Á síðasta kjörtímabili hef ég setið í bæjarstjórn Bolungarvíkur, sem formaður menningar- og ferðamálaráðs og varamaður í umhverfismálaráði. Ég er virkur í félagsstörfum á svæðinu og sit í stjórnum Heilsubæjarins Bolungarvíkur, Sjálfsbjargar í Bolungarvík, Ferðafélags Ísfirðinga og er einnig virkur meðlimur í Skógræktarfélagi Bolungarvíkur og Björgunarsveitinni Erni.
Ég er borinn og barnfæddur bolvíkingur, yngsti sonur Jóns Sveinssonar og Ingibjargar Bjarnadóttur. Sambýliskona mín er Annika Behnsen, sem er að klára nám sitt sem leik- og grunnskólakennari. Saman eigum við dótturina Lilju Salóme Behnsen Magnúsdóttir og annað barn hefur einnig boðað komu sína í byrjun september.
Helstu áherslumál mín snúa að umhverfis- og skipulagsmálum, samþættingu fjölmenningarsamfélagsins, betri ásýnd bæjarins og samvinnu og samtali við bæjarbúa.
Mínir helstu kostir eru vinnusemi, gott skipulag og að vilja hafa hreint og fínt í kringum mig, Ég tek hlutunum ekki of alvarlega og reyni að draga fram það jákvæða og góða í bæði málefnum og fólki. Ég á mjög auðvelt með samvinnu með svo til hverjum sem er og er alltaf opinn fyrir því að hlusta á skoðanir annarra.