GREINARSKRIF
eftir frambjóðendur
Hérna ætlum við að birta greinar eftir frambjóðendur og hérna munu einnig birtast greinar frá fólki tengdu flokknum.
X við K á kjördag fyrir samvinnu, samstarf og samræður - tölum saman, vinnum saman
Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir
Máttur meyja og manna er framboð sem samanstendur af góðu fólki sem er til í að vinna Bolungarvík til heilla. Við viljum sjá að unnið sé að framtíðarsýn Bolungarvíkur. Við sem búum hérna værum ekki að fjárfesta í fasteignum ef við hefðum ekki trú á okkar bæjarfélagi. Við trúum því einnig að Bolungarvík hafi gríðalega mikið aðdráttaafl, við þurfum bara að gera það sýnilegra og markaðsetja það betur á landsvísu og víðar. Þess vegna teljum við umhverfismál vera mikilvægann lið í því. Með fegrun bæjarins, bættum götum og gangstéttum þá verður sýnin á bæinn meira heillandi, og sýnir líka að okkur þykir vænt um bæinn okkar. En til þess að þetta sé möguleiki þá þurfum við meiri atvinnu. Með atvinnu aukast tekjur bæjarins er þá enn meiri möguleiki til framkvæmda. Síðan göngin komu hefur verið talað um Bolungarvík og Ísafjarðarbæ sem eitt atvinnusvæði – það vantar einn mikilvægan hlekk, það eru samgöngumálin. Það eru einstaklingar á öllum aldri í Bolungarvík sem starfa eða eru í námi á Ísafirði en hafa annað hvort ekki ökuréttindi eða bíl til umráða og þurfa því alfarið að treysta á vini og vandamenn, því samgöngurnar sem eru í boði núna eru það takmarkaðar að þær henta ekki. Með bættum samgöngum væru allir sjálfstæðari til að sækja sér atvinnu, þjónustu og/eða félagslíf. Okkur yngra fólkinu ber skylda til að veita eldri íbúum þjónustu í hæðsta gæðaflokki. Þetta er fólkið sem ruddi brautina fyrir okkur að svo mörgu leyti. Og fyrir það eigum við að vera þakklát og sýna það í verki.
Við þurfum að vera með ábyrga fjármálastjórnun. Það er ekki langt síðan við í Bolungarvík vorum á gjörgæslu hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sá tími gleymist ekki auðveldlega. Við vorum ekki sjálfráð um framkvæmdir, viðhald né annað sem snýr að fjármálastýringu. Það eru því engin geimvísindi að við þurfum að fara vel með peningana okkar og fjárfesta skynsamlega. Það gerum við líka með auknu íbúðalýðræði og gagnsærri stjórnsýslu því íbúar Bolungarvíkur eiga að vera vel upplýstir um forgangsröðun framkvæmda í bæjarfélaginu og eiga að fá að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er einnig mín skoðun að íbúar eiga að hafa kost á því að vera vel upplýstir um það sem fer fram í stjórnsýslunni því Bolungarvík væri ekki til ef ekki væri fyrir íbúana. X við K á kjördag, fyrir samvinnu, samstarf og samræður – tölum saman, vinnum saman.
Sigríður Hulda, oddviti Máttar meyja og manna
Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir
Dagurinn í dag er búinn að vera ansi viðburðarríkur. Dagurinn í gær var skemmtilegur, ég fór sátt að sofa eftir að hafi farið á leikrit Kómedíuleikhúsins um Einar Guðfinnsson. Flest allir, sérstaklega af eldri kynslóðinni vita hvaða mann hann Einar hafði að geyma. Hann var maður sem gaf sveitafélaginu, Bolungarvík, stóran hluta af hjarta sínu. Ég trúi því að allir sem búa hérna og vilja starfa fyrir sveitafélagið séu tilbúnir að gefa hluta af sínu hjarta líka.
Það er greinilegt að kosningar eru eftir 2 daga, ókyrrð hefur einkennt daginn í dag, og ég er hugsi. Pólitíkin er algjör tík rétt fyrir kosningar. Sumir breytist í skepnur sem láta sig ekki varða tilfinningar annara, sem betur fer hefur verið lítið um það hérna, en þó bar aðeins á klóm og kjafti í dag.
Fyrir fjórum árum fengum við í MMM að heyra að við vildum EKKI leikskóla. Sú fullyrðing er engan veginn rétt, hvorki þá né nú. Við vildum skoða það betur að fara í byggingu niður á skólasvæðinu. Einu útskýringarnar sem við fengum var sú að niðurstaða úr skýrslu nefndar, sem stofnuð var til að kanna hagkvæmasta möguleikan við stækkun leikskólans , væri að byggja við leikskólann á Hlíðarstræti. Gott og vel, það var ekki hægt að snúa við þeirri ákvörðun. Við reyndum að synda á móti straumi með okkar tillögu en búið var að ákveða að ráða arkitekt, fara í deiliskipulagsvinnu og leita leiða til að fjármagna bygginguna. Þá ákvað ég að reyna ekki lengur að synda á móti heldur gera mitt besta til að börnin og starfsfólkið fengi viðunandi húsnæði sem sameinaði starfsemi leikskólans. Ýmislegt í þessu ferli hefði mátt betur fara, en ég ætla ekki að eyða púðri í að fara nánar út í það. Það hefur verið tekin ákvörðun og henni verður ekki snúið við á þessum tímapunkti.
EN ÞAÐ ER DEGINUM LJÓSARA AÐ MMM VILL LEIKSKÓLA ANNAÐ ER VITLEYSA!!
Vonandi eyðist sá misskilningur í eitt skipti fyrir öll með þessum skrifum mínum. Einnig hef ég heyrt að MMM hafi ekki viljað fara í persónukjör! Það er líka rangt. Við vorum tilbúnar að skoða það og mættum á opin fund sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á í Einarshúsi. Ég labbaði út af þeim fundi, eitt stórt spurningarmerki. Mín skoðun er sú að ég vill sjá persónukjör frekar en flokka.
Við skulum muna það að það er allt í lagi að vera ósammála, passa hvað við segjum við hvort annað og virða ólíkar skoðanir. Við erum öll að vinna að sama markmiði en viljum bara fara ólíkar leiðir.
Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem ég hef starfað með á vettvangi sveitastjórnar síðustu 4 ár.
Munum eftir að mæta á kjörstað og kjósa
Með þakklæti
Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir
Fráfarandi fulltrúi MMM
Hjörtur Traustason
Mér finnst ekki gaman að lesa en þetta finnst mér áhugaverð lesning. Förgun sorps á umhverfisvænan og orkuskapandi hátt, þetta þarf að skoða vel og helst framkvæma. Með þessu gætum við sem eigum heima hér vonandi fengið nóg og mikið meira en nóg af heitu vatni sem kæmi frá þessari stöð. Gert er ráð fyrir að Vestfjarðastöðin geti meðhöndlað 80–100 þúsund tonn af heimilissorpi og öðrum úrgangi árlega. Miðað við förgun á 80 þúsund tonnum á ári yrði rafmagnsframleiðsla um 60 gígawattstundir á ári og hitaorka (heitt vatn) um 164 gígawattstundir. Er afl hennar sem orkuvers því um 7,5 MW raforka og 23 MW varmaorka (heitt vatn), samtals um 30 MW.
Ég vill fá alla í umræðuna, með og á móti, kosti og galla en umfram allt umræðu. Þetta eru störf og auknar tekjur fyrir Bolungarvík og við verðum að skoða þennan möguleika með kostum og göllum.
Hjörtur Traustason skipar annað sæti á K-lista Máttar meyja og manna í Bolungarvík.
Magnús Ingi Jónsson
Eftir menntaskólagöngu í Menntaskólanum á Ísafirði lá leið mín suður til Reykjavíkur til frekari menntunar, eins og leið flestra ungra Vestfirðinga liggur í dag. Menntavegurinn lá á braut ferðamála og markaðsfræða við Háskóla Íslands sem síðar leiddi mig til áframhaldandi menntunar í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Þegar háskólagráðurnar voru komnar í hús þá var það ekki erfið ákvörðun fyrir mig að flytja aftur heim til Bolungarvíkur en það var hinsvegar ekki sjálfgefið að flytja aftur heim. Kærastan mín, Annika Behnsen, var blessunarlega á sama máli og var tilbúin til þess að halda áfram sínu námi í fjarnámi til þess að geta flutt vestur.
Ég vinn á Þjónustudeild Vegagerðarinnar, með aðstöðu á Ísafirði en Annika vinnur í hlutastarfi á leikskólanum Glaðheimum í Bolungarvík með kennaranámi. Ég hef unnið á hinum ýmsu stöðum og ber þar helst að nefna Markaðsstofu Vestfjarða og Íþróttamiðstöðina Árbæ.Framtíðarsýnin okkar er að koma okkur fyrir í Bolungarvík, nýta okkar menntun í þágu samfélagsins og vera virkir meðlimir í uppbyggingu samfélagsins.
Bæjarmálin
Ég hef reynt hvað ég get eftir að ég flutti aftur heim að hafa áhrif á samfélagið mitt í gegnum félagasamtök. Mér finnst mjög skemmtilegt að vinna í félagsmálum og taka þátt í verkefnum sem koma að uppbyggingu samfélagsins og vellíðan íbúa. Ég er formaður samtakanna Heilsubærinn Bolungarvík, virkur meðlimur í skógræktarfélagi Bolungarvíkur og er að vinna að því á næstu dögum að stofna umhverfissamtök Bolungarvíkur. Það kemur því sennilega ekkert á óvart að mín helstu áherslumál í bæjarpólitíkinni séu, atvinnumál, umhverfismál, ferðamál, heilbrigðismál og velferðarmál.
Framtíðarsýnin mín er að samfélagið í Bolungarvík muni dafna, að vel sé tekið á móti nýjum íbúum og stoðir atvinnulífsins styrktar. Atvinnumálin og húsnæðismálin eru þeir málaflokkar sem við þurfum að hlúa hvað mest að á næstu fjórum árum. Við getum ekki sagt að við séum að laða að ungt fólk eða nýja íbúa ef við höfum hvorki atvinnu, byggingarlóðir né húsnæði í boði. Aðrir málaflokkar munu síðan fylgja í kjölfarið en atvinnumál og húsnæðismál hljóta alltaf að vera kjölfestan í ákvarðanatöku um nýja búsetu fólks. Einnig verðum við í bæjarpólitíkinni að gera okkur grein fyrir því að íbúasamsetning hefur verið að breytast undanfarna áratugi og íbúar samfélagsins eru að eldast og fleiri munu koma til með að þurfa á velferðarþjónustu sveitarfélaganna að halda á næstu árum.
Umhverfismálin
Umhverfismálin eru málaflokkur sem oft á tíðum er settur á hliðarlínuna þegar kemur að fjárveitingum. Það er eitthvað sem má ekki gerast og breytingar þar á þurfa ekki að kosta svo mikið. Í þessum málaflokki ermikið um lítil atriði sem auðvelt er að kippa í liðinn en skipta samt sem áður miklumáli. Það er því vel við hæfi að þessi málaflokkur sé settur í forgang þegar lítið er um digra sjóði hjá sveitarfélaginu.Mótun umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið er stórt verkefni sem yrði síðan vinnuplagg sem unnið yrði eftir á komandi árum. Undir umhverfisstefnuna falla gríðarlega mörg atriði sem hafa áhrif á samfélagið okkar sem margir íbúar eru ekki sáttir við í dag. Þar má helst nefna sorpmál og sorpflokkun, fráveitumál, viðhald gatna og gangstétta, setningu umhverfismarkmiða og aukna deiliskipulagningu. Best væri einnig að virkja íbúa sem mest við vinnu við umhverfisstefnu og hvetja íbúa til þess að taka opin svæði í fóstur í samráði við sveitarfélagið. Þar að auki finnst mér kjörið að sveitarfélagið haldi samkeppni um umhverfishönnun á Aðalstræti með það að meginmarkmiði að gera íbúavænan miðbæ.
Ferðamálin og samgöngumálin
Þar sem bakgrunnur minn og menntun tengist að stórum hluta ferða- og samgöngumálum, þá liggur það kannski í augum uppi að þar liggur áhugasviðið. Leggja þarf vinnu í skipulag og hönnun ákveðinna svæða, merkingar gönguleiða, skilta- og upplýsingagerð og mótun vettvangs til dreifingar slíkra upplýsinga. Söfnin okkar tvö þurfa aukna markaðssetningu og semja þarf við landeigendur í Ósvör um áframhaldandi aðstöðuuppbyggingu við Sjóminjasafnið Ósvör. Fyrir liggur styrkur til hönnunar á útsýnispalli á Bolafjalli og það þarf að fylgja honum eftir á komandi árum með styrkbeiðnum til framkvæmda. Þegar kemur að samgöngumálum þá eru það almenningssamgöngurnar sem kallað er eftir. Foreldar með börn í frístundum eru mjög ánægðir með tilraun síðustu ára um frístundarútu og best væri ef hægt væri að útfæra frístundarútuna sem almenningssamgöngur og fjölga þar af leiðandi ferðum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
Eftir að ég flutti vestur hef ég fundið fyrir aukinni bjartsýni á meðal íbúa og atvinnulífið er hægt og rólega að verða fjölbreyttara. Við erum ekki eingöngu bundin við sjávarútveginn, þósvo hann muni ávallt vera undirstöðuatvinnugrein í samfélaginu. Við þurfum líka að stuðla að því sem íbúar Vestfjarða að standa saman í stærri málefnum, því ef fleiri eru sammála og röddin heyrist hátt er sannfæringarkrafturinn meiri. Að endingu þá finnst mér að við ættum að nýta kosti þess fjölmenningarsamfélags sem er hér á svæðinu og bjóða nýbúa, bæði innlenda og erlenda, meira velkomna heldur en við gerum í dag.
Magnús Ingi Jónsson, skipar 3. sæti á K-lista Máttar meyja og manna í Bolungarvík.