top of page

Síðasti bæjarstjórnarfundur ársins 2023. 

Bolungarvík, 13.12.2023

Í gær fór fram síðasti bæjarstjórnarfundur ársins 2023 og jafnframt seinni umræða fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024.
Það voru einnig stór tímamót því Baldur Smári Einarsson oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra, óskaði eftir lausn frá störfum og hefur hann því lokið 20 ára setu í bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar. Baldur hefur því gríðalega mikla reynslu og þekkingu í bæjarmálum og hefur hann verið okkur í MMM mikill stuðningur og reynst okkur vel. Við þökkum Baldri Smára fyrir góða samvinnu í gegnum árin og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.

Sigríður Hulda, oddviti MMM

Síðasti bæjarstjórnarfundur ársins 2023_edited.jpg

68. Fjórðungsþing að hausti og verkefnin framundan.

Bolungarvík, 16.10.2023

68. Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti var haldið í Bolungarvík 6. og 7. október síðastliðinn. Eins og svo oft á svona þingum þá er eitt af aðalatriðunum að koma saman, ræða mikilvæg mál og koma sér saman um sameiginleg hagsmunamál Vestfirðinga. Því meira sem maður kynnist öllu því frábæra fólki sem vinnur að sveitarstjórnarmálum á Vestfjörðum því skemmtilegra verður að mæta á Fjórðungsþing og heyra mismunandi sjónarhorn fólks á málefnin og er það hollt fyrir okkur öll. Fyrir MMM mættu Magnús Ingi Jónsson, Ástrós Þóra Valsdóttir og Olga Agata Tabaka. Eins og venjulega þá lá meginþungi málanna í samgöngumálum, vetrarþjónustu og orkumálum sem eru þau atriði sem Vestfirðingar hafa barist fyrir hvað lengst og augljóst að við stöndum ekki jafnfætis öðrum landshlutum þegar kemur að. Á þinginu voru samþykktar 14 ályktanir og ein breyting á samþykktum Fjórðungssambandsins er tengjast umgmennaráði Vestfjarða. Ályktanirnar fjölluðu um Heilbrgðiseftirlit Vestfjarða, skiptingu gjalds vegna fiskeldis í sjó, lagareldi, sameiginlega loftslagsstefnu Vestfjarða, endurmat ofanflóðahættu í byggð, viðbragðsáætlanir vegna ofanflóða, ljósleiðaravæðingu, jöfnun kostnaðar vegna flokkunar og förgunar sorps, samfélag og menningu, menntastefnu, öryggisnet viðbragðsaðila, jarðgöng og um samgöngur frá ímynd Vestfjarða. Þessar ályktanir er hægt að lesa sér meira til um á síðu Vestfjarðastofu hér. Ályktanirnar munu gangast okkur sem sitjum í stjórn Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga þannig að við getum vitnað í þær þegar við skrifum umsagnir til ríkisins um hin ýmsu mál. Eftir þingið á föstudeginum var skoðunarferð í fyrirtækin í Bolungarvík og fór hópurinn í heimsókn til Arctic Fish, Jakobs Valgeirs og í Verbúðina. Skoðunarferðirnar voru mjög vel heppnaðar og ég veit ekki til annars nema allir hafi farið ánægðir frá okkur. Í tilefni Fjórðungsþings var einnig skrifað undir nýjan samning um Velferðarþjónustu Vestfjarða með Ísafjarðarbæ sem leiðandi sveitarfélags.

                Staða bæjarsjóðs nú í október er nokkuð góð en halda þarf vel á spöðunum engu að síður. Kostnaður við laun, vexti og verðbætur er hærri heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir auk þess sem nokkur verkefni hafa farið yfir áætlanir. Framundan er vinna við fjárhagsáætlun næsta árs og hefur starfsfólk sveitarfélagsins unnið að gagnaöflun og upplýsingavinnu fyrir komandi ár og tæknideildin er að vinna að tillögum að verkefnum fyrir komandi ár. Vinnufundur Bæjarstjórnar verður haldinn í byrjun nóvember þar sem fjárhagsáætlun verður kynnt og farið yfir forsendur hennar. Nefndin um endurskoðun bæjarmálasamþykktarinnar og erindisbréfa ráða og nefnda mun skila af sér bæjarmálasamþykktinni til síðari umræðu í bæjarstjórn á þessu ári en endurskoðun erindisbréfa nefnda mun líklegast ekki fara fram fyrr en eftir áramót. Ég hlakka mikið til vinnunnar framundan og horfi björtum augum til framtíðar.

Magnús Ingi Jónsson

Forseti bæjarstjórnar i Bolungarvík

A2 Magnús Ingi - Einstaklingsmynd.jpg

Allt í gangi í Bolungarvík og við höldum bjartsýn inn í nýjan vetur. 

Bolungarvík, 13.09.2023

Allt í gangi í Bolungarvík

Þá er komið rúmt ár frá síðustu sveitarstjórnarkosningum hér í Bolungarvík og því tilvalið að fara yfir verkefnin sem hafa verið helst á baugi hjá okkur í sveitarstjórninni síðastliðið ár. Ég er mjög stoltur að því að tilheyra þessari bæjarstjórn og mér finnst mikið hafa áunnist á undanförnum árum. Mestu máli skiptir þó að mínu mati hversu vel bæjarstjórn vinnur saman. Í maí síðastliðnum fögnuðum við þeim mikilvæga áfanga að íbúafjöldinn í Bolungarvík er kominn á ný yfir 1.000 íbúa og verkefninu Bolungarvík 1.000+ því formlega lokið. Þetta voru svo sannarlega góðar fréttir fyrir Bolungarvík og ég tel að við getum litið framtíðina björtum augum á mjög mörgum sviðum. Þegar þetta er skrifað hefur íbúum fjölgað enn frekar og íbúafjöldinn kominn í 1.009 íbúa og fyrirsjáanleg fjölgun framundan miðað við alla þá atvinnuuppbyggingu sem á sér stað í sveitarfélaginu og fyrirsjáanlega uppbyggingu fasteigna á komandi árum. Núna í byrjun sumars var gerður uppbygginarsamningur um byggingu íbúðarhúsnæðis á svokölluðum Bjarnabúðarreit og verða byggðar þar allt að 25 nýjar íbúðir á næstu árum sem núna eru í grenndarkynningu. Ég fagna þessum áformum mjög og hlakka til þess að þetta verði að veruleika. Hluti af þessum hugmyndum er m.a. að grafa upp tjörnina Drymlu, sem staðsett var á Bjarnabúðarreitnum, ofan til og utan við Bjarnabúð. Þarna mun verða til skemmtilegt útivistarsvæði í jaðri miðbæjarins sem óneitanlega mun trekkja að íbúa sem og ferðamenn. Nýtt miðbæjarskipulag er í vinnslu og hafa sést í fjölmiðlum ýmsar hugmyndir að verkefnum sem unnið er að. Í nýju miðbæjarskipulagi er stefnt að þéttingu byggðar í miðbænum og ef öll áform ganga eftir gætu íbúðir við Aðalstræti orðið allt að 100 í fyrirsjáanlegri framtíð. Einnig eru uppi hugmyndir um hótelbyggingu sem staðsett yrði við Hólsá. Miðbæjarskipulagið gerir ráð fyrir því að Hafnargatan verði vistgata og meginhluti þjónustu og verslunar muni byggjast upp við hana. Einnig er lagt til að svokallað Lækjartorg, neðan við Einarshús, verði aðalsamkomusvæði Bolvíkinga. Miðbæjarskipulagið er ekki eina deiliskipulagið sem unnið er að heldur hefur einnig verið skipulagt nýtt hverfi í nágrenni Hreggnasa sem hlotið hefur nafnið Lundahverfi. Samkvæmt deiliskipulaginu, sem er núna komið til Skipulagsstofnunar til auglýsingar, er gert ráð fyrir 20 lóðum undir íbúðarhús þar sem koma mætti fyrir um 50 íbúðum. Byggðin verður blönduð en þar eru skipulagðar lóðir fyrir fjölbýlishús, einbýlishús, par eða raðhús. Stefnt er að því að úthluta þeim lóðum sem sótt hefur verið um á næstu dögum. Fasteignamarkaðurinn hefur svo sannarlega verið að glæðast í bænum á liðnum árum og söluverð eigna hefur verið að hækka. Mín upplifun er sú að það sé töluverður skortur á bæði eignum til sölu og til leigu. Til þess að mæta skorti á leiguhúsnæði þá lagði sveitarfélagið húsnæðið að Vitastíg 1-3 inn í leigufélagsverkefnið Skýlir og hafa þar verið útbúnar 14 íbúðir sem allar eru komnar í útleigu. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Bolungarvík hefur verið að hækka gríðarlega á undanförnum árum, sem hefur þær afleiðingar að fasteignagjöld íbúanna hækka. Fasteignaskatturinn í Bolungarvík miðast við leyfilegt hámark álagningar sem er 0,625%. Fasteignaskatturinn er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna á eftir útsvari og byggist hann á álagningarstofni sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út árlega. Stofnunin hefur kynnt endurmat fasteigna fyrir komandi ár og er meðalhækkun á sérbýli 22,3% og meðalhækkun á fjölbýli 18,6%. Þessar tekjur þýða mikið fyrir sveitarfélagið en umræðan um endanlega álagningu fasteignagjalda 2024 verður tekin við vinnslu fjárhagsáætlunar 2024 nú á haustmánuðum.

 

Framkvæmdir og staða verkefna

Fjárfestingar ársins eru vissulega margar en mest munar þó um framkvæmdir í vatnsveitu sveitarfélagsins. Núna á næstu dögum fara í gang framkvæmdir um uppsteypu miðlunartanka við nýju borholuna í Hlíðardal sem sjá mun Bolvíkingum fyrir köldu vatni sem ekki er yfirborðsvatn. Yfirborðsvatn er óhreinna og veldur ójöfnu álagi á hreinsikerfi vatnsins eins og t.d. í leysingum á vormánuðum og er í meiri hættu á því að mengast. Við reiknum með því að þessum framkvæmdum ljúki síðan á vormánuðum næsta árs með tengingu tankanna og nýs hreinsikerfis við vatnskerfi bæjarins. Ég tel þetta vera mikið framfaraskref fyrir Bolvíkinga og einkum og sérstaklega fyrir matvælafyrirtækin sem staðsett eru í sveitarfélaginu, sem hafa kallað eftir þessu í mörg ár. Fleiri fjárfestingar eru þó á döfinni og má þar meðal annars nefna byggingu sólhúss á annarri hæð hvíta hússins, þar sem íbúar hússins hafa margir hverjir kvartað undan ástandi skýlisins sem þar er staðsett nú þegar. Einnig er nú byrjað á endurnýjun trappanna við mötuneytið í grunnskólanum, sem áður hýsti aðalandyri skólans en þær hafa legið undir skemmdum í nokkur ár og þarfnast lagfæringa. Búið er að leggja mikla vinnu í sumar við að bæta aðgengi að leikskólanum Glaðheimum og lagfæringar og frágang á leikskólalóðinni, 7 milljónir voru lagðar til framkvæmda á hafnarsvæðinu og 15 milljónir í uppbyggingu áfangastaðar á Bolafjalli svo eitthvað sé nefnt en hluti þeirrar framkvæmdar verður ekki að veruleika fyrr en á næsta ári. Tæknideild sveitarfélagsins á svo sannarlega hrós skilið fyrir það að halda utan um allar þessar fjárfestingar og framkvæmdir og ég veit til þess að álagið hefur verið mikið á þeim uppgripstímum sem hafa verið undanfarin ár og eru fyrirsjáanlegir áfram.

Bæjarsjóður stendur ágætlega en þó er staðan örlítið verri heldur en gert var ráð fyrir í byrjun árs. Það má rekja til þess að launaskrið var meira heldur en áætlað var og vaxtakjör hafa versnað mikið á árinu, aðföng hafa hækkað í verði og málaflokkar eins og velferðarþjónusta og barnavernd hafa tekið mikið til sín. Við getum verið mjög stolt af þeirri velferðarþjónustu sem við veitum og getum veitt miðað við það hversu lítið samfélag við í raun erum. Í vetur höfum við tekið virkan þátt í vinnu við nýjan samning sveitarfélaganna á Vestfjörðum um sérhæfð velferðarmál, sem tekur við af byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (BSVEST) og barnaverndarþjónustu. Í því fyrirkomulagi þá er Ísafjarðarbær leiðandi samfélag og ég hlakka til þess að sjá hvernig þetta fyrirkomulag kemur út. Bent hefur verið ítrekað á það að málaflokkur fatlaðs fólks sé dýrari en gert var ráð fyrir þegar sveitarfélögin tóku málaflokkinn yfir frá ríkinu og brýn þörf á því að frekari fjármunir komi inn til sveitarfélaganna. Sorpmálin hafa líka verið rekin með tapi síðustu ár og liður í því að lagfæra þann rekstur er aukin flokkun og verðmætasköpun í sorpmálum. Núna í byrjun sumars 2023 var flokkun sorps breytt í Bolungarvík og því bætt við að lífrænt sorp er nú flokkað sérstaklega frá almennu sorpi sem og að pappír og plast er flokkað sérstaklega í sundur. Allir íbúar bæjarins hafa fengið ný hólf í sorptunnur til frekari flokkunar við hús sín og auk þess voru borin í hús dreifibréf um það hvað á heima í hvaða tunnu. Þessar breytingar koma til vegna nýrra laga ríkisins um meðhöndlun úrgangs og samræmingu flokkunar á milli sveitarfélaga. Teikn eru á lofti varðandi gasgerðarstöð sem vilji er fyrir því að koma upp í Bolungarvík til þess að nýta þessar auðlindir okkar betur og hugsanlega koma úrgangi eða sorpi, sem annars hefði verið urðað, í verð.

 

Stóru verkefnin framundan:

Það eru mörg stór verkefni framundan og yfirleitt er það erfiðasta verkefni hverrar fjárhagsáætlunargerðar að ákveða hvaða verkefni á að fara í á hverju ári. Yfirleitt er það svo að maður vill fara í öll verkefnin en einungis er til fjármagn til þess að framkvæmda um tíund þeirra verkefna. Stóru verkefnin sem nú þegar er byrjað á hef ég aðeins komið inn á hér að ofan þar sem rætt var um uppbyggingu vatnsveitu, fjölgun lóða til byggingu íbúðarhúsnæðis og nýtt miðbæjarskipulag. Mikil þörf er einnig á því að fara í gatnaframkvæmdir en þar eru Völusteinsstræti, Miðstræti, Höfðastígur og Holtastígur mest aðkallandi. Það liggur fyrir að það þarf að fara í mikla lagnavinnu og grafa upp stóran hluta þessara gatna áður en hægt verður að malbika þær. Það sama er að segja með gangstéttirnar en þær eru víða orðnar ansi lúnar. Umhverfismálaráð hefur ítrekað nefnt það á fundum að það vilji koma upp viðhaldsáætlun þegar kemur að gangstéttum og göngustígum og tók ég saman skýrslu um málið sem tekin var fyrir í umhverfismálaráði í ágúst sem mun verða útgangsplagg fyrir þessa vinnu. Það er eiginlega ekki hægt að tala um stóru verkefnin framundan án þess að minnast á Bolafjall, Uppbyggingu í Ósvör, nýja landfyllingu við höfnina og alla þá uppbyggingu sem einkaframtakið stendur fyrir á svæðinu. Við eigum stór og flott fyrirtæki í byggðarlaginu sem hafa trú á samfélaginu og sjá hag sinn í því að byggja enn frekar upp á svæðinu. Ég er mjög stoltur af því að tilheyra samfélagi þar sem bjartsýni ríkir og fólk hefur trú á framtíðinni. Ég veit að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess framtíðin verði björt í Bolungarvík.

 

Magnús Ingi Jónsson

Forseti bæjarstjórnar i Bolungarvík

A2 Magnús Ingi - Einstaklingsmynd.jpg

Haustið byrjar með trukki

Bolungarvík, 11.09.2023

Nú er sumarið á enda þó tíðarfarið síðustu misseri gefi það ekki beint til kynna

Haustið byrjar með trukki eins og flest ár. Þingfólk Framsóknar á NV kíktu í heimsókn til Bolungarvíkur í síðustu viku.

Framundan eru reglulegir fundir í ráðum og nefndum Bolungarvíkurkaupstaðar.

Í næstu viku er fyrsti fundur bæjarstjórnar veturinn 2023-2024.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2023, verður haldin 21. og 22. september. Er ráðstefnan mikilvægur vettvangur til að hitta annað sveitarstjórnar- og embættisfólk sveitarfélaganna. Fá fræðslu og fyrirlestra fyrir komandi vinnu.

Fjórðungsþing Vestfirðinga verður haldið í Félagsheimilinu í Bolungarvík 6. og 7. október. Þá koma sveitarstjórnarfulltrúar, bæjar- og sveitastjórar saman og fara yfir þau mál sem sem snúa að Vestfjörðum. Umfjöllunarefni þingsins í ár er “Umhverfi og ímynd Vestfjarða”.

Annars leggst veturinn vel í okkur, við erum tilbúin í vinnuna með samtali og samvinnu að leiðarljósi eins og vanalega.

Sigga Hulda, oddviti MMM.

Þingmenn framsóknarflokksins í Bolungarv
A2 Magnús Ingi - Einstaklingsmynd.jpg

Fjórðungsþing að vori 2023

Ísafjörður, 12.04.2023

Það var annasamur dagur hjá okkur í dag en við Sigga Hulda mættum á Orkuþing Vestfjarða og í beinu framhaldi á Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori. Mannmargt var á Orkuþinginu og erum við sérstaklega ánægð með það. Helstu málefni sem þar voru rædd fólust helst í fyrirsjáanlegum raforkuskorti á Vestfjörðum í náinni framtíð og leiðir til þess að sporna við honum. Ræddir voru þeir virkjanakostir sem núna er verið að vinna að eða rannsaka og farið yfir hugsanlegar tímalínur er snertir framkvæmdahliðina. Starfsfólk bolvíska orkuskiptaverkefnisins Bláma var með kynningu á því hvaða verkefni er verið að vinna að þar, hversu mikil orkuþörfin myndi verða og hvaða lausnir eru fyrirsjáanlegar í náinni framtíð. Önnur erindi komu frá Landsvirkjun, Landsneti, Orkubúi Vestfjarða, Einari Kr. Guðfinnssyni og VesturVerki sem öll voru fróðleg og skemmtileg. Auk þess voru Jóhanna, formaður stjórnar FV og Vestfjarðastofu og Halla Signý, alþingismaður með erindi. Ég hvet alla áhugasama til þess að hlusta á erindin sem munu fljótlega koma inn á vef Vestfjarðastofu www.vestfirdir.is.

Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori var stutt og laggott að þessu sinni en þar var farið yfir skýrslu stjórnar, ársreikning ársins 2022 og fjárhagsáætlun ársins 2023. Bæði ársreikningur og fjárhagsáætlun voru samþykkt samhljóða.

Bestu kveðjur til ykkar allra,

Magnús Ingi Jónsson

Íbúafundir á næstunni

Til stendur að halda íbúafundi á vegum sveitarfélagsins á næstu misserum. Þeir munu verða auglýstir hér þegar nær dregur og tímasetningar eru orðnar klárar. Umræðuefni fundanna eru eftirfarandi:

Stefna og framtíð ferðaþjónustu í Bolungarvík

Rætt verður um uppbyggingu ferðaþjónustu í Bolungarvík, skipulag og framkvæmdir á Bolafjalli, framtíðarhugmyndir og uppbygging í Ósvör og mótttaka ferðamanna í sveitarfélaginu. 

Skipulagsmál í Bolungarvík

Rætt verður um nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi sem er svo til tilbúið og nýtt deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæði sem er í vinnslu.

Umhverfismál og endurskoðun sorphirðu í Bolungarvík

Rætt verður um vatnsöflun fyrir sveitarfélagið, nýtt fyrirkomulag sorpflokkunar, uppbyggingu rafhleðslustöðva og margt fleira. 

xK_edited.jpg
bottom of page