Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir
VILL MMM EKKI LEIKSKÓLA?
Dagurinn í dag er búinn að vera ansi viðburðarríkur. Dagurinn í gær var skemmtilegur, ég fór sátt að sofa eftir að hafi farið á leikrit Kómedíuleikhúsins um Einar Guðfinnsson. Flest allir, sérstaklega af eldri kynslóðinni vita hvaða mann hann Einar hafði að geyma. Hann var maður sem gaf sveitafélaginu, Bolungarvík, stóran hluta af hjarta sínu. Ég trúi því að allir sem búa hérna og vilja starfa fyrir sveitafélagið séu tilbúnir að gefa hluta af sínu hjarta líka.
Það er greinilegt að kosningar eru eftir 2 daga, ókyrrð hefur einkennt daginn í dag, og ég er hugsi. Pólitíkin er algjör tík rétt fyrir kosningar. Sumir breytist í skepnur sem láta sig ekki varða tilfinningar annara, sem betur fer hefur verið lítið um það hérna, en þó bar aðeins á klóm og kjafti í dag.
Fyrir fjórum árum fengum við í MMM að heyra að við vildum EKKI leikskóla. Sú fullyrðing er engan veginn rétt, hvorki þá né nú. Við vildum skoða það betur að fara í byggingu niður á skólasvæðinu. Einu útskýringarnar sem við fengum var sú að niðurstaða úr skýrslu nefndar, sem stofnuð var til að kanna hagkvæmasta möguleikan við stækkun leikskólans , væri að byggja við leikskólann á Hlíðarstræti. Gott og vel, það var ekki hægt að snúa við þeirri ákvörðun. Við reyndum að synda á móti straumi með okkar tillögu en búið var að ákveða að ráða arkitekt, fara í deiliskipulagsvinnu og leita leiða til að fjármagna bygginguna. Þá ákvað ég að reyna ekki lengur að synda á móti heldur gera mitt besta til að börnin og starfsfólkið fengi viðunandi húsnæði sem sameinaði starfsemi leikskólans. Ýmislegt í þessu ferli hefði mátt betur fara, en ég ætla ekki að eyða púðri í að fara nánar út í það. Það hefur verið tekin ákvörðun og henni verður ekki snúið við á þessum tímapunkti.
EN ÞAÐ ER DEGINUM LJÓSARA AÐ MMM VILL LEIKSKÓLA ANNAÐ ER VITLEYSA!!
Vonandi eyðist sá misskilningur í eitt skipti fyrir öll með þessum skrifum mínum. Einnig hef ég heyrt að MMM hafi ekki viljað fara í persónukjör! Það er líka rangt. Við vorum tilbúnar að skoða það og mættum á opin fund sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á í Einarshúsi. Ég labbaði út af þeim fundi, eitt stórt spurningarmerki. Mín skoðun er sú að ég vill sjá persónukjör frekar en flokka.
Við skulum muna það að það er allt í lagi að vera ósammála, passa hvað við segjum við hvort annað og virða ólíkar skoðanir. Við erum öll að vinna að sama markmiði en viljum bara fara ólíkar leiðir.
Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem ég hef starfað með á vettvangi sveitastjórnar síðustu 4 ár.
Munum eftir að mæta á kjörstað og kjósa
Með þakklæti
Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir
Fráfarandi fulltrúi MMM